Á morgun 22. september er bíllausi dagurinn en með honum lýkur Evrópskri Samgönguvika sem hófst þann 16. september. Eins og nafnið gefur til kynna eru allir hvattir til að láta bílana vera óhreyfða þann daginn og nýta sér virkan samgöngumáta til og frá skóla eða vinnustað. Til að auðvelda sem flestum að vera bíllausir þá verður frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri sem ávallt. Þátttakendur í Hjólum í skólann fá því gott tilefni og tækifæri til að koma sér á vistvænan hátt til og frá skóla og vinnu.
Samgönguvikan er samstillt átak sveitarfélaga í Evrópu um að ýta undir sjálfbærar samgöngur en evrópskur vefur átaksins er www.mobilityweek.eu. Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli þá samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft.
Hægt er að kynna sér átakið nánar á Facebook-síðu Evrópskrar Samgönguviku.
Þá er vert að benda á fræðslumyndbönd Samgöngustofu um umferðarmál þar sem farið er yfir fjöldamörg atriði sem tengjast umferðaröryggi. Sér í lagi þá eiga myndböndin Gangandi vegfarendur, Hjólað á gangstígum, Hjólað á akbraut og Akstur bifreiða með tilliti til hjólandi vegfarenda erindi til allra þeirra sem standa að eða eru þátttakendur í Hjólum í skólann.
Við hvetjum alla til að horfa á myndböndin með það í huga að sýna meiri aðgát í umferðinni, bæði sem varkárir hjólreiðamenn og sem tillitsamir ökumenn.