Ákveðið var í ár að efna til keppni milli nemendafélaga innan HÍ og mun það nemendafélag sem vinnur hljóta glæsilegan farandsbikar í verðlaun.
Nemendur eru eindregið hvött til að taka þátt í átakinu og geta öll tekið þátt í Hjólað í skólann svo framarlega sem þau nýta eigin orku eða vistvænan samgöngumáta til og frá HÍ, þ.e. hjóla, ganga, hlaupa, nota rafskútu o.s.frv. Þau sem nýta almenningssamgöngur geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin eða hjóluð er til og frá stoppistöð.

Nemendur taka þátt með því að skrá sig til leiks með nemendafélagi sinnar námsleiðar (ekki er nauðsynlegt að vera skráður meðlimur í nemendafélaginu). Keppt er um hlutfallslega flesta þátttökudaga og það nemendafélag sem fær hlutfallslega flesta nemendur til að taka þátt og ferðast oftast með vistvænum hætti vinnur.

Leiðbeiningar
1. Smellt er á gula hnappinn efst hægra megin á síðunni (merktur „Innskráning“). Þeir sem eru að taka þátt í átákinu í fyrsta sinn skrá sig með því að smella á hnappinn „Nýskráning“. Aðrir nýta fyrra notandanafn og lykilorð til að skrá sig inn.
2. Þegar innskráningu er lokið er farið í flipann „Liðsstjórnun“ við hliðina á „Minn aðgangur“.
3. Undir „Skráning“ er hægt að velja viðeigandi nemendafélag með því að ýta á felliglugga og ýta á „áfram“.
4. Hægt er að skrá sig til leiks allan tímann á meðan á keppninni stendur og hægt að skrá inn ferðir afturvirkt!

Komi upp einhver vandamál eða einhverjar spurningar sem vakna, má senda fyrirspurn á umhverfismal@hi.is og við reynum að aðstoða eftir fremsta megni.